28.6.2009

Sunnudagur, 28. 06. 09.

 

 

Haldið kyrru fyrir í les Murs og þess beðið, að félagar í Skálholtskvartettinum,  yrðu á staðnum, en Svava kom frá Kristiansand í Noregi þennan dag. Að þessu sinni bættist franskur sellóleikari, Bruno Cocset, í hópinn.

Föstudaginn, sem við vorum í Chartres, hafði rigningarveður gengið yfir les Murs og sagði Sigurður okkur, að hann hefði ekki áður séð jafnmikið vatnsfall á jafnskömmum tíma. Ég sagði, að varla hefði það verið meira en á Mallorka í fyrra, þegar götur fóru á flot á nokkrum mínútum. Sigurður sagði svo hafa verið.

Við urðum ekki var við neina úrkomu í Chartres, þótt þar hafi raunar verið spáð þrumuveðri, og nú er hitinn að nálgast 30 stig.

Kyrrð sveitarinnar er mikil í sólinni. Í lokuðum virkisgarði setursins með turnana sína fjóra birtist nútíminn í traktorum, bílum og sólstólum.  Hvinur járnbrautarlesta,  þegar þær þjóta fram hjá, rétt utan við austurhlið virkisveggjarins, raskar einng rónni en venst fljótt.

Í einu horni garðsins stendur dúfnahúsið, en þar höfðu bréfdúfur aðsetur á árum áður. Kannski truflaði kurrið í þeim ekki minna þá en lestirnar núna.. 

Fyrstu byggingar eru frá 1380. Afi frú Agnesar keypti les Murs á sínum tíma og hann flutti bókasafn sitt í eitt útihúsanna . Íbúðarhúsið, sem er mikið að vöxtum, er einnig hlaðið bókum. Dáist ég að fjölbreytileika safnsins.

Í svefnherbergi okkar má til dæmis finna nútíma bandarísk bókmenntaverk auk æviminninga af ýmsu tagi, meðal annars Sketches From a Life eftir George F. Kennan, sendiherra í bandaísku utanríkisþjónustu og höfund skeytisins fræga, sem kennt var við Mr. X, þegar það birtist í tímaritinu Foreign Affairs. Þar eru lögð drög að stefnu Bandaríkjastjórnar gegn Sovétríkjunum í kalda stríðinu. Þetta eru dagbókarbrot. mest um ferðalög. Af þeim má ráða, að Kennan hefði orðið liðtækur bloggari um heimsósómann.

Við Rut skruppum til nágrannabæjarins Issodoun. Um lok fyrri heimsstyrjaldarinnar var þar æfingavöllur fyrir bandaríska flugmenn og var 90 ára afmælis þeirrar samvinnu Bandaríkjamanna og Frakka minnst á dögunum.