Sunnudagur, 07. 06. 09.
Þegar þetta er skrifað virðist Euoropean Pepole's Party (EPP), það er flokkur þeirra, sem skipa sér hægra megin við miðju stjórnmálanna, vera sigurvegari kosninganna til Evrópusambandsþingsins. Jafnaðarmenn tapa fylgi og víða illa, m. a. í Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og á Spáni, svo að fjölmennustu þjóðarinnar. Í Póllandi vann EPP góðan sigur og verða Pólverjar stærsti þjóðarhópurinn innan EPP.
Flokkar hægra megin við EPP, Græningjar og einnig þeir, sem eru lengst til vinstri, styrkja stöðu sína.
Kosningaþátttaka var aðeins 43%, hin lægsta í sögu ESB-þingkosninga síðan 1979. Sérfræðingur í Brussel taldi, að þeir hefðu almennt bætt stöðu sína á ESB-þinginu, sem væru hlynntir Lissabonsáttmálanum og meiri samruna, hvað sem skiptingu í flokka liði.
Sigur Íhaldsflokksins í Bretlandi og vaxandi líkur á því, að Gordon Brown hrökklist frá völdum, veldur áhyggjum hjá þeim, sem vilja Lissabonsáttmálann, því að David Cameron, formaður Íhaldsflokksins, og William Hague, utanríkisráðherraefni Íhaldsflokksins, vilja leggja Lissabonsáttmálann fyrir bresku þjóðina til atkvæðagreiðslu. Sáttmálasinnar í öllum ESB-löndum vona, að Verkamannaflokkurinn, sem aldrei hefur farið jafnilla í kosningum, lafi áfram við völd í Bretlandi, hvort sem Brown leiðir hann eða ekki, svo að ekki verði þingkosningar þar fyrir lok október, en þann tíma hafa Írar til að greiða að nýju þjóðaratkvæði um sáttmálann. Talið er að efnahagshrunið hafi aukið fylgi þeirra á Írlandi, sem styðja Lissabonsáttmálann.