22.6.2009

Mánudagur, 22. 06. 09.

Í BBC World var sagt frá fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem hófst á Madeira í dag. Þar var vikið að hvalveiðum Japana og Íslendinga á gagnrýnin hátt. Fréttinni lauk á þeim orðum, að andstæðingar hvalveiða teldu umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu bestu leiðina til að stöðva hvalveiðar hér á landi. Fyrr í dag hafði umhverfisráðherra Portúgals látið eins og færi saman að vera í ESB og veiða hval. Fréttin um þetta sannaði aðeins, að ráðherrann hefur ekki mikla þekkingu á þessum málum eða á afstöðu Evrópusambandsþingsins til þeirra.

Í Fréttablaðinu segir, að rætt sé um að loka Þjóðmenningarhúsinu í sparnaðarskyni og nota lokun þess til að huga að framtíðarnýtingu. Hannes Hafstein lét reisa húsið á fyrstu heimastjórnarárunum til að sýna, að þjóðin væri nokkurs megnug. Sé svo komið, að ekki er unnt að halda húsinu opnu og sýningunni á handritunum þar, er orðið þröngt í búi.

Vissulega er táknrænt, að þeir, sem ætla að verja tugum milljóna til að ræða um aðild að Evrópusambandinu á komandi misserum, sjái þá leið besta til sparnaðar að loka glæsilegum minnisvarða um bjartsýni og kraft heimastjórnarinnar. Að vísu kæmi það blessunarlega í veg fyrir, að húsið yrði notað til viðræðna um mesta afsal íslensks stjórnsýsluvalds í hendur annarra, frá því að heimastjórnin kom til sögunnar árið 1904.