23.6.2009

Þriðjudagur, 23. 06. 09.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefur greinilega ekki mikla trú á málstað Íslands í ICESAVE-málinu. Hann talar þannig í Kastljósi kvöldsins, að ekki sé skynsamlegt að láta reyna á málið fyrir dómstólum, því að Bretar og Hollendingar myndu þá halda fram hinum ýtrustu kröfum. Þar að auki vilji nágrannaþjóðir ekki, að við stöndum í slíkum málarekstri.

Á vefsíðunni amx.is birtist í dag frétt um, að fyrr í þessum mánuði hefði ESB-dómstóllinn í Lúxemborg dæmt bresku ríkisstjórninni í óhag, vegna þess að hún frysti fjármagn „andlegs sendiherra“ Bin Ladens í Evrópu með vísan til bresku hryðjuverkalaganna og hryðjuverkalista Sameinuðu þjóðanna. Líklegt er, að hvergi hefði nokkur ríkisstjórn eða fulltrúi hennar talið skynsamlegt af hinum „andlega sendiherra“ hryðjuverkamannsins að stofna til málaferla gegn bresku ríkisstjórninni. Hann gerði það samt og vann málið.

Einkennilegust er röksemdin, að hvergi finnist dómstóll í heiminum, sem geti dæmt í ICESAVE-málinu. Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, minnti á það í Morgunblaðinu gær, að varnarþing íslenska ríkisins sé í Reykjavík.

Í alþjóðadeilu er sérkennilegt, að opinberir málsvarar smáþjóðar leggist gegn því, að stórveldi séu kölluð fyrir dómstól til að standa fyrir máli sínu, þegar smáþjóðin telur brotið á rétti sínum. Orð viðskiptaráðherra í Kastljósinu benda því miður til þess, að hann telji sjálfsagt og eðlilegt að láta ekki reyna á réttinn gagnvart stórveldinu, af því að aðrar þjóðir eru sama sinnis og það, svo að ekki sé minnst á Brussel-vald Evrópusambandsins, sem hannaði hinar ófullburða reglur utan um bankafrelsið.