Fimmtudagur, 11. 06. 09.
Ég heyrði ekki betur en fréttastofa hljóðvarps ríkisins hefði í hádeginu leitað til stjórnmálafræðings vegna ástandsins í Kópavogi, þar sem sótt er að Gunnari I. Birgissyni og Sjálfstæðisflokknum. Ástæðulaust er að gera lítið úr því stjórnmálaástandi, sem þar hefur skapast.
Hafi fréttastofan kallað á stjórnmálafræðing sér til hjálpar vegna ástandsins í ríkisstjórninni í ICESAVE-málinu, hefur það farið fram hjá mér. Þar er upplýst, að formaður þingflokks vinstri-grænna sé á móti og einnig Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, auk einhverra fleiri í hópi þingmanna vinstri-grænna. Að þingflokksformaður og ráðherra séu andvígir máli, sem hlýtur að varða líf ríkisstjórnar, ætti á alla kvarða að gefa tilefni fyrir fréttastofuna að kalla á stjórnmálafræðing sér til hjálpar. Kannski er það þó óþarfi, af því að Sjálfstæðisflokkurinn á ekki í hlut.
Jóhanna Sigurðardóttir kallaði á hjálp frá Sjálfstæðisflokknum í ICESAVE-málinu á þingi í dag. Neyðarkallið náði þó ekki stjórnmálafræðingi inn í fréttatíma ríkisins.
Jón Kaldal, einráður ritstjóri Fréttablaðsins, eftir að Þorsteinn Pálsson hvarf úr ritstjórastóli í vikubyrjun, sagði í leiðara í gær, að afstaða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, skipti meira máli í ICESAVE en Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra. Betra væri, að Steingrímur J. skipti um skoðun til fylgis við ICESAVE-samninginn en Bjarni væri á móti honum, þótt hann hefði mælt með því, að leitað yrði samninga fyrr í vetur.
Jón Kaldal gerir engan mun á þeirri afstöðu, að leitað skuli samkomulags, og hinu, að samkomulagið sé ekki nógu gott. ICESAVE-samningur Svavars Gestssonar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar er einfaldlega ekki nógu góður, enda sýnast talsmenn hans einkum styðjast við þann hræðsluáróður, að án samningsins einangrist Ísland og verði að engu, ef marka má svæsnustu svartsýnismennina.
ICESAVE-samningurinn er einskonar björgunarkútur á leið Íslands inn í Evrópusambandið. Ég ítreka fyrri orð mín: Æstustu ESB-aðildarinnar þola verst tvennt: 1. að rætt sé um einhliða gjaldmiðilsskipti á Íslandi; 2. að sýnt sé fram á, að án lausnar á ICESAVE á kostnað íslensku þjóðarinnar, sé vonlaust fyrir Össur Skarphéðinsson að færa aðild Íslands að ESB í tal við aðra en Maltverja.