13.6.2009

Laugardagur, 13. 06. 09.

Ríkisstjórnin kom saman til aukafundar í morgun til að ræða ríkisfjármál, en áform hennar voru, að kynnt skyldi fyrir lok þessarar viku, hvernig brúa ætti rúmlega 20 milljarða nýjan fjárlagahalla þessa árs. Þá hafði einnig verið boðað, að fjárlög til ársins 2012 yrðu kynnt eftir nokkra daga. Eftir hádegi hittu ráðherrar samráðsaðila utan þings. Að loknum þessum fundum sagði forsætisráðherra, að ekkert yrði kynnt um ríkisfjármál, fyrr en undir lok næstu viku.

Menn þurfa ekki að vera vel að sér um vinnubrögð ríkisstjórna til að átta sig á því, að vandræði Jóhönnu Sigurðardóttur við að standa við eigin tímamörk stafa af því, að ríkisstjórnin er ráðalaus. Hún hefur ekki burði til að veita þá forystu, sem er nauðsynleg.

Á meðan ríkisstjórnin treystir sér ekki til að taka á málum, eykst vandi þjóðarinnar. Í maí sagði peningastefnunefnd, að ríkisstjórn yrði að ná tökum á ríkisfjármálum til að stýrivextir lækkuðu. Samráð eða viðleitni til að dreifa ábyrgð á herðar annarra losar ríkisstjórnina undan þeirri skyldu hennar að taka á fjármálum ríkisins.