12.6.2009

Föstudagur, 12. 06. 09.

Í framhaldi af því, sem ég skrifaði hér í gær, las ég þennan texta á mbl.is í dag:

„Jóhanna Sigurðardóttir  forsætisráðherra var spurð eftir  ríkisstjórnarfund í morgun hvort stjórnin myndi ekki springa ef Alþingi neitaði að samþykkja ríkisábyrgðir vegna Icesave - samningsins. Hún svaraði því til að ef  samningurinn verði felldur sé komin upp alveg ný staða sem þurfi að taka á.  Hún segist þó ekki trúa því að svo fari. Það verði að skoða málið í ljósi forsögunnar. Hún hafi ekki trú á því að Sjálfstæðismenn standi að því að greiða atkvæði gegn þessum samningi.

Icesave- samkomulagið verður væntanlega lagt fyrir Alþingi í lok næstu viku. Ágreiningur er um málið í þingflokki VG en fjármálaráðherra segir ekki hægt að tala um efnislegan ágreining fyrr en menn hafi kynnt sér öll gögn málsins.  Hann segist treysta því að það hafi áhrif á viðhorfið til samningsins þegar öll gögn verði lögð fyrir þingið  og segist jafnframt bjartsýnn á að þá sjái menn að þetta sé góð niðurstaða miðað við aðstæður. Þá geti menn líka gefið sér tíma til að hugleiða hvaða afleiðingar það hafi ef þetta verði ekki samþykkt.“

 

Eðlilegt er að skilja orð Jóhönnu þannig, að hún vænti þess, að Sjálfstæðisflokkurinn framlengi líf ríkisstjórnarinnar með því að samþykkja ICESAVE-samninginn. Bjartsýnin lengi lifi!

Fyrir liggur, að formaður þingflokks vinstri-grænna og heilbrigðisráðherra eru á móti ICESAVE. Fjármálaráðherra lætur hins vegar að því liggja, að þau eigi eftir að móta sér aðra skoðun „þegar öll gögn verði lögð fyrir“ alþingi. Hefur hann leynt samflokksmenn sína, þingflokksformann og heilbrigðisráðherra einhverju?

Augljóst er, að ICESAVE-samningurinn er aðgangseyrir að Evrópusambandinu. Samfylkingin mun herma upp á vinstri-græna, að ríkisstjórnin sé mynduð um aðildarviðræður að ESB og þess vegna verði þingmenn vinstri-grænna að styðja ICESAVE. Ætli Steingrímur J. eigi eftir að fara yfir þetta með Ögmundi?