Föstudagur, 05. 06. 09.
Aflinn, félag qi gong iðkenda, efndi til aðalfundar í dag klukkan 17.00 í Kaffi Flóra í grasagarðinum í Laugardal. Félögum fjölgar ár frá ári og áhugi félagsmanna á því að kynna fleirum æfingarnar.
Í dag var skýrt frá því, að samningar væru að takast í ICESAVE-deilunni. Í tilefni af því ritaði ég pistil um málið á vefsíðuna www.efrettir.is og vakti athygli á tvöfeldni Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, í málinu. Hún er undraverð, þegar litið er til þess, sem hann segir nú, og sagði rúmri viku, áður en hann varð ráðherra við stjórnarskiptin 1. febrúar sl.
Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í dag á vefsíðu sinni í tilefni af fréttum um ICESAVE:
„Löngu var ljóst að við áttum engan annan kost en að semja um þessar skuldir. Hinn kosturinn var að segja sig úr lögum við umheiminn og útiloka samfélagið um leið frá erlendu lánsfé, hefðbundnum viðskiptum og almennum áhrifum í áratugi. Sennilega hefði EES-aðild okkar meðal annars verið í hættu – og það er kannski sú fjöður sem er orðin að fimm hænum í þeirri frábæru kenningu að hér sé ríkisstjórnin að greiða einhverskonar aðgöngu-„gjald“ inn í ESB. Sem er að öðru leyti einhver hin lágkúrulegasta í langri og leiðinlegri sögu landráðabrigsla í íslenskri pólitík.“
Þetta er forvitnilegur samsetningur hjá Merði til stuðnings þeirri afstöðu, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók sem utanríkisráðherra, að ICESAVE deilan væri pólitísk en ekki lögfræðileg, það bæri að semja í stað þess að beita lögfræðilegum rökum gegn Evrópusambandinu, Bretum og Hollendingum. Lögfræðilegu rökin voru stórhættuleg fyrir Evrópusambandið og sneru beint að veiku regluverki þess um bankastarfsemi yfir landamæri. Hér er því ekki aðeins um það að ræða að búa í haginn fyrir ESB-aðild heldur einnig er komið til móts við kröfur ESB-lögfræðinganna um að ekki sé látið reyna á regluverkið sjálft. Samkvæmt orðum Marðar hefðu öll okkar tengsl við Evrópusambandið verið í hættu, ef pólitíska leiðin til samninga hefði ekki verið valin.