24.6.2009

Miðvikudagur, 24. 06. 09.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir á dv.is í dag, að Íslendingar hefðu ekki getað gætt lagalegs réttar síns á evrópska efnahagssvæðinu vegna Icesave, þar sem það hefði skapað réttaróvissu á svæðinu og þar með skapað Evrópusambandinu mikil vandræði. Þessi yfirlýsing staðfestir þá skoðun, að krafa Ingibjargar Sólrúnar sem utanríkisráðherra um pólitíska lausn á Icesave-deilunni byggðist á tilliti til Evrópusambandsins. Þar með var kastað á glæ sterkasta vopni Íslendinga í viðræðum við Hollendinga og Breta,  það er hótun um að leita til dómstóla til að fá skorið úr gildi regluverks Evrópusambandsins. Niðurstaða nauðungarsamningsins ber þess merki, að íslenska sendinefndin undir formennsku Svavars Gestssonar taldi sig í raun ekki hafa neina samningsstöðu, hún væri að bjarga Íslandi frá einangrun.

Ég ritaði grein um fyrirhugaða ályktun alþingis um ESB-tengsl í Morgunblaðið í dag. Það lofar ekki góðu um vinnubrögð í utanríkismálanefnd þingsins, ef formaður nefndarinnar, Árni Þór Sigurðsson, vinstri-grænn, telur sig hafa umboð til að lýsa yfir, eins og hann gerði í dag, að tillögur stjórnar og stjórnarandstöðu verði sameinaðar í nefndinni. Hvar er gagnsæið í þessu máli? Hvar er skírskotun til kjósenda? Á sama leyndin að ráða ferðinni í þessu máli og einkennt hefur vinnubrögð stjórnarflokkanna í Icesave-málinu? Það leynimakk hefur ekki skilað góðum árangri.

Icesave-samningurinn er röskstuddur á þann veg, að hann auðveldi aðild að Evrópusambandinu. Aðild er rökstudd með því, að hún geri kleift að taka upp evru. Með Icesave-skuldbindingunum er borin von, að Íslendingar standist Maastricht-skilyrðin, án þess geta þeir ekki tekið upp evru. ESB-fjölmiðlarnir ræða þennan „vinkil“ málsins að sjálfsögðu ekki.

Þegar augljóst er, að aðild að ESB krefst stöðvunar á hvalveiðum, segja aðildarsinnar, að það megi ræða málið. Þegar ESB-RÚV kallar sérfræðing á vettvang til að sannfæra hlustendur um, að aðild lækki verðlag, segir sérfræðingurinn, að það sé ekki víst en hins vegar megi vænta þess, að verðlag hækki minna eftir aðild en ella væri! Þetta er kennt við „faglega úttekt“ á kostum og göllum ESB-aðildar og túlkað á þann veg, að verðlag lækki við aðild. Hvernig væri að ESB-RÚV reiknaði út beinan kostnað við aðild að ESB og tæki Icesave-skuldbindingarnar með í reikninginn?