13.9.2007 23:04

Fimmtudagur, 13. 09. 07.

Var í hádeginu gestur Heiðursmanna SÁÁ að Vogi. Kynntist starfsemi Vogs, hlýddi á erindi Þórarins Tyrfingssonar um þróun fíknefnaneyslu, flutti ræðu og svaraði fyrirspurnum.

Þakkaði ég SÁÁ sérstaklega fyrir samkomulagið við lögregluna á höfuborgarsvæðinu, sem tryggir lögreglunni aðgang að Vogi með skjólstæðinga sína. Er þetta fyrsti samningur af þessu tagi og ætti að mínu mati að verða leiðarljós fyrir hið opinbera heilbrigðiskerfi, þar sem það gerist því miður, að lögregla kemur að lokuðum dyrum, þegar um menn er að ræða, sem dómarar hafa ekki talið sakhæfa vegna sjúkdóms.

Af umræðum mætti stundum draga þá álytkun, að önnur lögmál gildi um heilbrigðisþjónustu fyrir þá, sem lenda undir manna höndum, en hina, sem ganga frjálsir. Þetta er mikill misskilningur. Hið opinbera heilbrigðiskerfi þjónar öllum og ekki er rekið neitt sérstakt heilbrigðiskerfi á vegum fangelsisyfirvalda.