27.9.2007 9:40

Fimmtudagur, 27. 09. 07.

Hitti Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, á fundi í Ósló í morgun og ræddum við samstarf um kaup á nýjum björgunarþyrlum.

Ég sé á mbl.is, að birt er frétt frá NRK, þar sem haft er eftir mér, að Rússar hafi óskað eftir varnarsamstarfi við Ísland. Þessa skoðun fréttamannsins sagðist ég hins vegar ekki geta staðfest í samtali við hann. Á hinn bóginn vildi ég sem dómsmálaráðherra, að samstarf yrði við Rússa um öryggi skipa á siglingaleiðinni frá Barentshafi til N-Atlantshafs. Ég tel fréttamanninn hafa haft í huga ummæli rússenska sendiherrans í Reykjavík í sjónvarpi, þegar hann var spurður um Rússaflug, en Valur Ingimundarson vitnaði til þeirra í fyrirlestri í Tromsö. Ég sagðist ekki vita, hvað byggi að baki ummælunum, enda hefði sendiherrann sagt, að hann hefði beint erindi til utanríkisráðuneytisins.

Hélt frá Ósló kl. 14.45 að norskum tíma og lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 15.15.

Um kvöldið var sýnt viðtal við mig í leikhús/kvikmyndaþætti sjónvarpsins 07/08. þar sem ég ræddi um þýsku myndina Das Leben der anderen og Die Hard myndirnar.