15.9.2007 22:09

Laugardagur, 15. 09. 07.

Fór klukkan 09.15 fljúgandi til Egilsstaða. Við komuna þangað fór ég í ökuferð með Einari K. Guðfinnssyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, til Reyðarfjarðar, þar sem við skoðuðum hið mikla álver ALCOA frá veginum og  ókum í gegnum göngin til Fáskrúðsfjarðar.

Við vorum komnir á Seyðisfjörð rétt fyrir klukkan 13.00 og sátum þar fyrir svörum á fjölmennu SUS-þingi með þeim Geir H. Haarde forsætisráðherra og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðis- og tryggingaráðherra.

Ég var spurður um málefni lögreglu, landhelgisgæslu og varnarmál auk þess sem töluvert var rætt um aðgerðir lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í miðborginni og taldi ég óhjákvæmilegt, að hún léti að sér kveða af fullum þunga í því skyni að uppræta það ástand, sem skapast hefði með miðborgarómenningunni um nætur. Einnig var spurt um aðskilnað ríkis og kirkju og sagði ég hann kominn á í raun, því að afskipti ríkisvaldsins af málefnum kirkjunnar væru ekki nein lengur.

Að loknum fyrirspurnatíma og kaffidrykkju héldum við Einar K. að nýju yfir Fjarðarheiði og nú var þar snjófjúk. Við fórum að Eiðum og yfir í Fellabæ, áður en við flugum af stað frá Egilsstöðum klukkan 17.55.