17.9.2007 16:29

Mánudagur, 17. 09. 07.

Fór á fund klukkan 09.00 í morgun hér í Brussel um þróun dóms- og lögreglumála í ljósi umræðna um nýjan stofnsamning Evrópusambandsins og þá breytingu, að svokölluð þriðja stoð verður lögð niður og flest málefni undir henni flutt undir fyrstu stoð sambandsins, það er undir meirihlutaákvarðanir. Þetta er flókið og vandasamt ferli, niðurstaðan er óljós á þessari stundu og þess vegna ekki unnt að segja, hvaða áhrif hún kann að hafa á samstarf við Schengen-ríki utan ESB, það er Ísland, Noreg og Sviss.

Markmiðið er, að á leiðtogafundi ESB hinn 18. október nk. verði tekin ákvörðun um hinn nýja stofnsamning. Mikil vinna hlýtur því að fara fram um þessar mundir á bakvið tjöldin til að samræma sjónarmið landanna 27. Líklegt er, að mál verði leyst á þann veg, að ríki geti verið á misjöfnum hraða innan ESB, það er ákveðið sjálf án yfirþjóðlegs valds, hvaða skuldbindingar þau taki á sig á sviði dóms- og lögreglumála.

Var ég á fundum um þessi mál fram til klukkan 17.00.

Það er mikið bil á milli þess, hvernig menn ræða ESB-málefni hér á þessum vettvangi, og boðskaparins, sem Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, er að flytja í Morgunblaðinu í dag, þegar hann lætur eins og undanþága Dana vegna sumarhúsa á Jótlandi geti orðið fyrirmynd að undanþágu fyrir Íslendinga vegna yfirráða yfir fiskimiðunum við Ísland, ef landið færi í ESB. Í besta falli byggist þessi málflutningur Andrésar á vanþekkingu nema hann vilji vísvitandi halda fram blekkingum til að fegra ESB-aðild Íslands í augum einhverra. Erfitt er að átta sig á því, hvers vegna talsmenn ESB-aðildar á Íslandi telji sig þurfa að haga málflutningi sínum á þennan veg.

Vilji menn efla samstarfið við ESB er nærtækast að sinna því á öflugri hátt en nú er gert á grundvelli EES- og Schengen-samninganna. Þeir veita okkur öll þau tækifæri, sem við þurfum, til að njóta okkar vel á þessum vettvangi. Virknin er aðeins undir okkur sjálfum komin.