20.9.2007 16:55

Fimmtudagur, 20. 09. 07.

Þess verður minnst sem merks atburðar í sögu lögreglu og landhelgisgæslu, sem gerðist í dag, þegar samvinna þessara aðila leiddi til þess, að komið var upp um stórfellt smygl á fíkniefnum til landsins með skútu, sem kom til hafnar í Fáskrúðsfirði. Færi ég öllum heima og erlendis, sem að þessu máli hafa komið af hálfu yfirvalda, þakkir og heillaóskir.

Árangurinn byggist á ákverkni, trausti og trúnaði milli þeirra, sem hafa unnið að því að upplýsa málið og einnig á þeim breytingum, sem orðið hafa á skipan lögreglumála og landhelgisgæslu, auk viðtæks alþjóðlegs samstarfs.

Í dag hittum við Þórir Gunnarsson, aðalræðismaður, Jiri Pospisil, dómsmálaráðherra og formann lagaráðs Tékklands. Ræddum við skipan dómsmála, menntun lögfræðinga, breytingar á Evrópusambandinu og innleiðingu Schengen-samstarfsins í Tékklandi á um klukkutíma fundi okkar í dómsmálaráðuneytinu.