21.9.2007 22:39

Föstudagur, 21. 09. 07.

Ókum í dag með aðalræðismannshjónunum í Tékklandi Þóri Gunnarssyni og Ingibjörgu Jóhannsdóttur til bæjarins Cesky Krumlov, skammt frá landamærum Tékklands og Austurríkis. Bærinn er á heimsminjaskrá UNESCO og er skemmtilegt að hafa fengið tækifæri til að skoða hann og kastlann, sem gnæfir yfir honum.

Ég fékk fyrirspurnir frá blaðamönnum í dag um hvaða ráðstafanir ég teldi nauðsynlegar til að varna því, að fíkniefni bærust til landsins á svipaðan hátt og upplýst var um í gær á Fáskrúðsfirði. Tæknilega og skipulagslega er unnt að gera ýmsar rástafanir og sjálfsagt að huga að þeim.

Spurningar blaðamannanna snúast um viðbrögð í og umhverfis landið, sem vissulega eru mikilvæg. Eigi góður árangur að nást skiptir þó mestu að greina áhættu rétt og síðan grípa til aðgerða með sérgreint markmið í huga.  Þetta var haft að leiðarljósi við þá aðgerð lögreglu, sem nú er í sviðsljósinu.

Árangurinn á Fáskrúðsfirði byggist á miklli og góðri vinnu fjölda fólks á Íslandi og í öðrum löndum og þátttöku margra stofnana innan lands og utan. Haldlagning og handtökur eru toppurinn á ísjakanum.