Föstudagur, 14. 09. 07.
Forvitnilegt er að lesa lýsingar á því, að ekki fari vel á með þeim Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands. Þau hittust á fundi sl. mánudag fyrir norðan Berlín og í tilefni af því bárust fréttir um þetta. Rifjað er upp, að Sarkozy braut blað í sumar með því að sækja fund fjármálaráðherra ESB-ríkjanna til að tala máli Frakklands og minnkandi áhrifa seðlabanka Evrópu. Þýski fjármálaráðherrann tók orðum Frakklandsforseta þunglega, sem svaraði: „Svona tala menn ekki til forseta.“Væntu Frakkar þess, að Merkel kallaði fjármálaráðherrann á teppið. Þjóðverjar segja hins vegar, að ekki sé rætt um það utan veggja fundarsalarins, sem gerist á lokuðum trúnaðarfundum. Að sögn unir Sarkozy þessum málalyktum illa. Í blaðinu Rheinische Post er haft eftir Sarkozy, að samband Frakka og Þjóðverja sé „innantómt“.
Frakkar fá um 80% raforku sinnar frá kjarnorkuverum og vilja auka slíka orkuframleiðslu frekar en draga úr henni. Sarkozy hefur hvatt þýsku ríkisstjórnina til að falla frá áformum um að loka kjarnorkuverum. Merkel tekur þessum hvatningarorðum þunglega, því að samstarfsflokkur hennar, sósíal-demókratar, leggjast gegn kjarnorkuverum.
Náið samstarf Frakka og Þjóðverja hefur verið öflugasti öxullinn innan Evrópusambandsins. Sé hann að veikjast meðal annars vegna ágreinings um vald seðlabanka Evrópu, sem heldur utan um evruna, getur margt fleira raknað upp í Evrópusamstarfinu.