26.9.2007 20:43

Miðvikudagur, 26. 09. 07.

Tromsö-ráðstefnunni Emerging from the Frost lauk í dag klukkan 14.00 með erindi yfirmanns norska hersins, Sverre Disesen, en hann mun eftir nokkrar vikur leggja fram tillögu sína að varnarstefnu Noregs næstu fimm ár.

Ég ætla að melta með mér allan þann fróðleik, sem fluttur var á ráðstefnunni, áður en ég legg út af honum hér á síðunni. Á hinn bóginn get ég slegið því föstu, að fyrir þá, sem komu langt að til að hlusta á það, sem fyrirlesarar höfðu að segja, held ég, að ráðstefnan hafi opnað augu þeirra á þeirri gjörbreytingu, sem er í vændum á sviði  auðlindanýtingar, siglinga og öryggismála  á Norðurslóðum.

Okkur Íslendingum var gert hátt undir höfði á ráðstefnunni með þrjá fyrirlesara, þar sem okkur gafst færi á að lýsa stöðu okkar við hinnar nýju aðstæður.

Minnti þessi ráðstefna mig á svipaða fundi, sem ég sat á áttunda áratugnum, þegar Norðmenn og Íslendingar tóku höndum saman um að kynna öðrum þjóðum breytingar á Norðurslóðum vegna útþenslustefnu sovéska flotans og flughersins. Aðstæður eru aðrar núna og breytingarnar af öðrum toga og stafa ekki af keppni milli austurs og vesturs.

Klukkan 16.00 flaug ég frá Tromsö til Ósló.