7.9.2007 21:03

Föstudagur, 07. 09. 07.

Ríkisstjórn kom saman í Þingvallabænum klukkan 15.00 og hefur ekki verið haldinn ríkisstjórnarfundur þar áður, svo að ég muni.

Á fundinum kynnti ég tillögu um leigu á Super Puma þyrlu, sem ber einkennisstafina LN-OBX og hér var á síðasta vetri, í stað TF Sif. Var tillagan samþykkt. Fyrir liggur athugun, sem sýnir, að ekki er unnt að tryggja, að ávallt sé fyrir hendi ein þyrla til björgunarstarfa, nema landhelgisgæslan hafi fjórar þyrlur til ráðstöfunar.

Rússneski sendiherrann segir, að Íslendingar þurfi bara að venja sig við ferðir rússneskra sprengiflugvéla við landið, eftir það verði ekki kvartað vegna þeirra. Hreinskilni sendiherrans er virðingarverð. Hvað skyldu Rússar ætla að venja mörg ríki á ferðir sprengjuvéla án tilkynningar inn á flugstjórnarsvæði þeirra? Hvers vegna þarf að venja fjarlægar þjóðir við þessar ferðir?