22.9.2007 16:41

Laugardagur, 22. 09. 07.

Frídaginn notaði ég til að fara með Rut til Konopiste-kastala, sem er í um 20 mínútna akstursfjarlægð frá dvalarstað hennar í Listasetri aðalræðismannshjónanna Ingibjargar og Þóris hér í Tékklandi.

Kastalinn er mikill og fagur. Innan dyra er margt sögulegra minja einkum um síðasta eiganda og íbúa kastalans Ferdínand erkihertoga, sem féll ásamt Sófíu, konu sinni, fyrir launmorðingjahendi 28. júní 1914 í Sarajevó - og er upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar rakið til þess ódæðis. Börn þeirra hjóna bjuggu í kastalanum til 1921, þegar þau voru rekin þaðan og tékknesk stjórnvöld tóku hann í sína vörslu.

Í haustblíðunni var margt manna að skoða kastalann og rósagarðinn við hann, en þar má sjá 200 rósategundir.

Ferdínand erkihertogi var mikill áhugamaður um vopn og veiðar og ber innbú kastalans þess glögg merki. Þar er eitt mesta vopnasafn heims og veggina prýða horn og hausar til marks um, hve erkihertoginn var fengsæll. Leiðsögumaður sagði hann hafa drepið 300.000 dýr og sagan hermir, að með félaga sínum hafi hann fellt á sjötta þúsund dýr á tveimur sólarhringum. Erkihertoginn leit á veiðar sem viðleitni til að tryggja hæfilegt jafnvægi í náttúrunni.

Enn ræða menn að sjálfsögðu fíkniefnafundinn á Fáskrúðsfirði. Er skrýtilegt að sjá gildi hans dregið í efa, af því að fíkniefni muni áfram koma til landsins. Sumir sem þannig tala vilja líklega lögleiða neyslu fíkniefna. Aðrir nálgast viðfangsefnið frá þeim sjónarhóli, að fundurinn þýði síður en svo endalok læknisfræðilegrar fíknefnameðferðar. Röksemdafærsla af þessu tagi er í ætt við þau sjónarmið, að ekki eigi að gera ráðstafanir gegn hryðjuverkum, af því að alltaf verði til hryðjuverkamenn - eins og sá, sem myrti erkihertogahjónin í Sarajevo 28. júní 1914.