24.9.2007 21:00

Mánudagur, 24. 09. 07.

Flaug frá Prag klukkan 13.45, var lentur í Ósló 15.30 og tók vél til Tromsö kl. 16.35 og var kominn inn á hótel um 18.15. Ráðstefnan undir heitinu Emerging from the Frost hefst á morgun. Einhvern veginn hefur komist á kreik, að til hennar hafi verið boðað vegna svonefnds Rússaflugs. Þetta er mikill misskilningur. Á hinn bóginn verður vafalaust minnst á þetta flug á ráðstefnunni.

Ég las þessa frásögn af sjónvarpsviðtali við Steingrím Hermannsson á vefsíðu samráðherra míns Össurar Skarphéðinssonar:

„Það var hins vegar Íraksstríðið, sem gerði útslagið og veitti (Framsóknar)flokknum náðarhöggið – að sögn gamla foringjans. Hann kvað það út úr öllu korti við sögu og hugsjónir flokksins „að styðja árásarstríð.“

Hvað hefði flokkurinn átt að gera – spurði Eva María.

Hann hefði átt að slíta ríkisstjórninni, og knýja fram kosningar, svaraði gamli foringinn að bragði, og bætti því við – sem allir sáu á þeim tíma – að Framsókn hefði haft mjög sterka stöðu ef það hefði gerst.“

Hvað er hér á seyði? Íraksstríðið hófst í aðdraganda þingkosninga og þingstörfum var áð ljúka í sama mund og það hófst. Össur hefði átt að sjá, að Steingrímur hefur einfaldlega gleymt öllum dagsetningum í tengslum við upphaf stríðsins og stjórnmálin hér. Í kosningabaráttunni vorið 2003 lá alls ekki fyrir, að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn myndu starfa saman að kosningum loknum.

Ummæli Steingríms eiga ekki við nein rök að styðjast - nema hann hafi ætlað að segja, að framsóknarmenn hefðu ekki átt að mynda stjórn með sjálfstæðismönnum eftir kosningarnar 2003. Það er greinlega ekki alltaf auðvelt að vera vitur eftir á.