11.9.2007 21:53

Þriðjudagur, 11. 09. 07.

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi ráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í sjónvarpsviðtali á Stöð 2, að Sjálfstæðisflokkurinn væri að mála sig út í horn með því að ljá ekki máls á því að taka upp evru eða vilja ganga í ESB. Hvað segir hún þá um eigin flokk eða flokksformann, Guðna Ágústsson? Guðni hefur sagt, að ESB-tal forráðamanna Framsóknarflokksins hafi næstum gengið að flokknum dauðum. Sjálfstæðisflokkurinn lifir hins vegar góðu lífi - en Valgerður vill hann feigan og er þess vegna að etja honum á ESB-foraðið.

Hið einkennilega við ESB-umræðurnar er, að talsmenn ESB-aðildar verða alltaf háværastir rétt eftir kosningar og eftir að ríkisstjórn hefur mótað stefnu sína, án þess að ESB-aðild sé á dagskrá hennar. Eftir því sem líður á kjörtímabilið sljákkar í þeim og fyrir kjósendur er ekki lögð skýr stefna í kosningum um, að sótt skuli um aðild að ESB heldur að nauðsynlegt sé að ræða málið eða huga að samningsmarkmiðum Íslands.

Skyldi Framsóknarflokkurinn ætla að fylgja þeirri stefnu í stjórnarandstöðu, að Ísland skuli í ESB og taka upp evru? Eða er Framsóknarflokkurinn klofinn ofan í rót vegna Evrópumálanna?