Mánudagur, 03. 09. 07.
Kölnar-dómkirkja er ógleymanleg öllum, sem hafa heimsótt hana. Hún var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Nýlega var hún valin vinsælasti ferðamannastaður í Þýskalandi. Gestum í dómkirkjuna fækkar ekki við, að fyrir nokkrum dögum fékk hún nýjan 20 metra háan steindan glugga með nútímalegu listaverki eftir Gerhard Richter, einn fremsta núlifandi listamann Þýskalands. Glugginn eyðilagðist í síðari heimsstyrjöldinni og þótti því mörgum löngu tímabært, að úr skaðanum yrði bætt. Engum dettur í hug að hrófla við dómkirkjunni á heimsminjaskránni vegna þessa nýja listaverks. Á hinn bóginn lá fyrir nokkrum árum við, að skráningu kirkjunnar meðal heimsminja yrði stefnt í voða með tveimur háhýsum, sem áttu að rísa handan Rínar. Talið var, að þau myndu spilla sýn til hins mikla kirkjuturns og þar með draga úr verðleikum kirkjunnar. Fallið var frá því að reisa turnana, eftir að þessi gagnrýni heyrðist frá sérfræðingum UNESCO.
Jón Sveinsson, Nonni, er grafinn í kirkjugarði í Köln. Nú í haust verður þess minnst, að 150 ár eru liðin frá fæðingu hans. Af því tilefni verður efnt til hátíðarhalda í Köln.
Árið 2001 ritaði ég formála að franskri útgáfu á bókinni Nonni Aventures d'un jeune islandais racontées par lui-meme. Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég tölvubréf frá þýskri konu, búsettri í Köln, sem hafði rekist á þessa bók og hrifist af henni. Þar kynntist ég því enn einu sinni af eigin raun, hve sterkt Nonni höfðar til fólks. Max Adenauer, sonur Konrads kanslara, var á sínum tíma borgarstjóri í Köln auk þess að vera ræðismaður Íslands og formaður Íslendingafélagsins. Allt vegna kynna sinna af Nonna.