1.9.2007 15:28

Laugardagur, 01. 09. 07.

Eins og ég sagði frá sl. miðvikudag og kemur fram í þessari frásögn á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fór ég í heimsókn til embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum sl. miðvikudag.

Þá ræddum við meðal annars kröfur Evópusambandsins og eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á grundvelli EES-samningsins um, að farþegar sæti öryggisleit við komuna frá Bandaríkjunum. Óánægju gætir hjá farþegum á leið til Íslands yfir því að þurfa að fara í gegnum slíka leit. Hún byggist ekki á ESB/EES kröfum heldur skipulagi í flugstöðinni og munu stjórnendur hennar vera að velta fyrir sér leiðum til úrbóta.

Tilraunin með sérstakt öryggishlið fyrir farþega á Saga-class mun hafa leitt í ljós, að það sé ónauðsynlegt.

Dagur B. Eggertsson og Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, telja sig vita, hvernig lögreglan eigi að leysa miðborgarvandann eftir að hafa verið á einni næturvakt á gatnamótum Ingólfsstrætis og Bankastrætis. Sýndarmennska í stjórnmálum tekur á sig ýmsar myndir og kýs ég frekar að vera talinn ósýnilegur en stunda blekkingarleik, þegar öryggi borgaranna á í hlut.