19.9.2007 17:02

Miðvikudagur, 19. 09. 07.

Síðdegis fórum við Þórir Gunnarsson, aðalræðismaður Íslands, í tékkneska innanríkisráðuneytið hér í Prag og hittum Ivan Langer, ráðherra lögreglumála og landamæravörslu, og ræddum við hann um Schengen-málefni og önnur sameiginleg viðfangsefni. Í lok október hefur Langer boðað til fundar í Prag með ráðherrum nýju aðildarríkja Schengen til að staðfesta fyrsta áfanga fullrar aðildar þeirra að hinni sameiginlegu landamæravörslu.

Fyrir fáeinum árum var ráðherrann í 10 daga leyfi á Íslandi með eiginkonu sinni og átti þaðan góðar minningar, meðal annars frá því að hafa orðið að yfirgefa jeppa, þegar hann fór ekki á vaði yfir á. Gengu þau hjónin síðan í þrjár klukkustundir í nágrenni Öskju, þar til landvörður kom til móts við þau og bjargaði þeim til byggða.