17.1.2013 21:40

Fimmtudagur 17. 01. 13


Óhjákvæmilegt er að stefnan í útlendingamálum verði til umræðu fyrir kosningar. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur gefið yfirlýsingar um komu ólöglegra innflytjenda til landsins, hælisleitenda, sem ekki verða túlkaðar á annan veg en þann að hann vilji veita þeim sem mest svigrúm. Áhrifin eru skýr: 115 umsóknir hælisleitenda höfðu borist útlendingastofnun í lok árs 2012. Árið 2011 voru þær 76 og 2010, 51 segir á ruv.is.

Fjölgun hælisleitenda hefur leitt til meira annríkis á útlendingastofnun sem starfar við þröngan kost. Árið 2011 var fjöldi dvalardaga 13.565. Í lok síðasta árs voru þeir 28.799. Kostnaður við málaflokkinn fór úr 108 milljónum í 220 milljónir. Kristín Völundardóttir, forstjóri útlendingastofnunar, segist nú búast við öðru metári og telur að þessari aukningu ljúki ekki fyrr en farið verði að sinna þessum málaflokki af myndaskap og að málsmeðferð verði flýtt. 

Kristín sagði í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins að hin langa bið hælisleitenda eftir afgreiðslu á málum þeirra yki aðdráttarafl Íslands fyrir fólk sem hefði áhuga á að kynnast öðrum löndum á kostnað skattgreiðenda þessara landa, þeir stæðu undir húsnæði og fæði fólksins á meðan embættismenn könnuðu réttmæti óska aðkomumanna um hæli.

Kristín segir vísbendingar um að fólk komi hingað og stundi það sem kallist asylum shopping eða ferðamenn í hælisleit. Hún segist ekki geta sagt til um hversu stór hópur þetta sé. Stofnunin sé undirmönnuð og því ekki mikið svigrúm til að stunda fræðimennsku og rannsóknir.

Þetta er pólitískt mál sem ber að ræða í komandi kosningabaráttu. Viðhorf Ögmundar Jónassonar til málefna innflytjenda og hælisleitenda er pólitískt.  Það á að ræða á pólitískum forsendum og leggja undir dóm þjóðarinnar.