1.1.2013 23:10

Þriðjudagur 01. 01. 13.

Gleðilegt ár!

Greinilegt er að stjórnlagaráðsliðum er misboðið vegna nýársávarps Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, þar sem hann gagnrýndi tillögur þeirra. Einkenni á málsvörn Þorvalds Gylfasonar og Illuga Jökulssonar er að þeir fjalla meira um umgjörðina en efnið, að ferlið og aðild þeirra og annarra að því hafi leitt til niðurstöðu sem óréttmætt sé að gagnrýna.

Eitt helsta einkenni á málsvörn stjórnlagaráðsliða almennt er að þeir hefja ekki rökstuðning fyrir tillögum sínum heldur gorta sig af þeim. „Ég held sérstaklega að hann [grundvöllurinn frá stjórnlagaráði] sé miklu betri en sú stjórnarskrá sem við búum nú við – líka stjórnskipunarkaflinn, sem er sannarlega ekkert hættulegur...“ Ólafur Ragnar færði einmitt rök fyrir göllunum í stjórnskipunarkaflanum og sagði hann „tilraun um stjórnkerfi sem ætti sér engan líka á Vesturlöndum“.

Þorvaldur Gylfason segir á dv.is:

„Fráleitur þykir mér málatilbúnaður forseta Íslands – að stíga nú fram eftir dúk og disk og reyna að búa til nýjan ágreining um efnisatriði í stjórnarskrárfrumvarpinu, sem nú bíður afgreiðslu Alþingis í samræmi við þjóðarviljann eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október sl. Málflutningur forsetans vitnar ekki um ríkan skilning á eða virðingu fyrir leikreglum lýðræðisins. Vilji þings og þjóðar liggur fyrir.“

Forseti Íslands og allir aðrir hafa rétt til að gera athugasemdir við tillögur stjórnlagaráðs á hvaða stigi málsins sem það er. Það er út í bláinn að halda því fram að ferlið við gerð tillagnanna sé þess eðlis að vegna þess séu þær hafnar yfir gagnrýni eða tíminn til að gagnrýna þær sé liðinn.

Málið er enn til meðferðar á alþingi og þar eiga menn síðasta orðið um efni þess. Þingmenn hljóta að velta sérstaklega stjórnskipunarkaflanum og taka þar mið af orðum forseta Íslands eins og annarra. Einokunarárátta stjórnlagaráðsliða og sjálfshól er broslegt en ræður engum úrslitum um lyktir stjórnarskrármálsins.