Miðvikudagur 02. 01. 13.
Fréttastofa ríkisútvarpsins kynnti niðurstöðu í nýjum þjóðarpúlsi Gallups um fylgi stjórnmálaflokkanna síðdegis miðvikudaginn 2. janúar. Könnunin sýnir að vinstri-grænir (VG) hafa ekki verið minni í 10 ár, fylgi flokksins er 9,1% og þingmenn yrðu sex en hann fékk 14 þingmenn kjörna í apríl 2009. Þrír þessara þingmanna hafa sagt skilið við flokkinn á kjörtímabilinu og einn sagt af sér. Ég gaf skýringu á þessu fylgishruni á Evrópuvaktinni í dag eins og hér má sjá.
Í kvöld birtist á ÍNN viðtal mitt við Bjarna Harðarson, bóksala á Selfossi, sem starfaði sem upplýsingafulltrúi Jóns Bjarnasonar í ráðherratíð hans en sagði skilið við vinstri-græna um mitt ár 2012. Þar reyndi ég að leita skýringa á óheillaþróuninni innan VG og kom ekki að tómum kofanum. Samtalið má sjá klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Könnunin sýnir að Björt framtíð (BF), flokkur Guðmundar Steingrímssonar, fengi níu þingmenn í krafti 12,3% ef gengið yrði til kosninga nú. Samfylkingin myndi tapa sjö þingmönnum og fengi þrettán með 19,1% fylgi. Samtals tapa stjórnarflokkarnir, VG og Samfylking, fimmtán þingmönnum.
Sjálfstæðisflokkurinn fengi 36,3% og 26 þingmenn ef kosið yrði í dag og bætti við sig tíu þingmönnum. Framsóknarflokkurinn fengi 13,1% og níu þingmenn sama fjölda og í kosningunum fyrir fjórum árum.
Stjórnarflokkarnir hafa tapað fylgi síðustu vikur ársins, stjórnarandstaðan stóð í stað en BF vex fiskur um hrygg. Fylgið fer frá stjórnarflokkunum inn á grátt svæði BF. Spurningin er hve lengi þeir dveljast þar.