Sunnudagur 20. 01. 13
Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sá sem fékk starf sitt án auglýsingar og mun hrökklast úr stjórnarráðinu með Jóhönnu Sigurðardóttur heldur áfram að ráðast á nafngreinda sjálfstæðismenn með rangfærslum.
Jóhann varð sér til skammar á dögunum þegar hann fjallaði um fjárdrátt Páls Heimissonar, fyrrverandi starfsmanns þingflokks hægrimanna í Norðurlandaráði. Nú tekur Jóhann sér fyrir hendur að telja mönnum trú um að skoðanir mínar á aðild Finna að ESB fyrir 20 árum þegar þeir fengu frelsi til eigin ákvarðana í utanríkismálum við hrun Sovétríkjanna nýtist honum og ESB-sinnum til að skýra afstöðu mína gegn aðild Íslands að ESB.
Jóhann tileinkaði sér þennan stíl þegar hann starfaði á vegum Baugsfeðga og þeir kostuðu hann meðal annars með leynd til halda úti útvarpsþáttum. Að maður sem sinnir fjölmiðlun á þennan hátt skuli ráðinn upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar er líklega einsdæmi.
Telji ESB-aðildarsinnar að málflutningur Jóhanns sé málstað þeirra til styrktar er fokið í öll skjól hjá þeim. Hann er að vísu í samræmi við blekkingariðjuna sem stunduð hefur verið frá fyrsta umsóknardegi 16. júlí 2009 og í aðdraganda hans þegar aðildarsinnar sögðu að viðræðuferlinu yrði örugglega lokið innan 18 mánaða.
Hér má lesa grein mína sem vakti reiði upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar og hér má lesa viðbrögð upplýsingafulltrúans.