16.1.2013 21:40

Miðvikudagur 16. 01. 13

Í dag ræddi ég við Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins, í þætti mínum á ÍNN. Við töluðum saman í rúmar 50 mínútur en þættinum sem hófst klukkan 20.00 lauk ekki fyrr en 21.10 svo mikið var af auglýsingum. Þátturinn er sýndur að nýju klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun þegar hann fer í loftið í síðasta sinn í þessari lotu. Ég mun setja krækju á hann við þessa síðu þegar hann kemur á vefsíðu ÍNN, hún heitir inntv.is og þar má sjá ýmsa gamla þætti sem birst hafa á stöðinni.

Davíð er skeleggur í málflutningi sínum að vanda. Þátturinn er þrískiptur. Í fyrsta hluta ræðum við kjara- og efnahagsmál, í öðrum hluta ESB-mál og í lokahlutanum ræðum við stjórnarskrármálið . Í lokin spyr ég Davíð hvernig hann meti hina pólitísku stöðu í ljósi komandi kosninga.

Sjón er sögu ríkari. Ég ætla ekki að lýsa því hér sem kemur fram í þættinum.

Á eyjan.is er sagt frá þeim hluta samtals okkar Davíðs sem sneri að stjórnarskrármálinu eins og lesa má hér.