29.1.2013 22:00

Þriðjudagur 29. 01. 13

Smári Sigurðsson, fv. yfirmaður alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra, skrifar grein í Fréttablaðið í dag og tekur upp hanskann fyrir Kristínu Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, vegna gagnrýni sem hún hefur sætt fyrir ummæli um hælisleitendur. Smári segir:

„Ég hygg að ef þeir sem hæst láta [vegna ummæla Kristínar] hefðu fyrir því að kynna sér málið betur mætti finna ótrúlega mörg dæmi þess að einstaklingar leita hælis á fölskum forsendum. Ég veit reyndar um allmörg dæmi og er sannfærður um að ef starfsmenn lögreglu sem starfa að þessum málaflokki væru spurðir gætu þeir nefnt fjölmörg dæmi þess að hælisleitendur segja ekki satt og rétt frá um aðstæður sínar.“

Smári hefur mikla reynslu af þeim málaflokki sem hér um ræðir. Ég er sammála honum um að ekki er allt sem sýnist þegar um þessi mál er rætt og full ástæða til að  mótmæla mörgu sem komið hefur fram í gagnrýni á Kristínu og orð hennar.

Smári segir einnig réttilega:

„Ísland er aðili að svokölluðum Dyflinnarsamningi sem gerður var til að koma í veg fyrir að flóttamenn sem fengið hafa synjun í einu aðildarlandi geti farið í næsta land og byrjað þar ferlið að nýju. Varla hafa stjórnvöld í þeim löndum sem aðild eiga að Dublinarsamningnum ákveðið að gera með sér samning nema að til þess lægju rök þ.e. að svo mikið var orðið um "asylum shopping" að ekki varð við unað.“

Rökin fyrir reglunum um hælisleitendur sem eru kenndar við Dublin eru skýr. Grein sinni lýkur Smári á þessum orðum:

„Að lokum verð ég að segja að mér er það umhugsunarefni að núverandi innanríkisráðherra skuli bregðast svo harkalega við ummælum undirmanns, sérstaklega í ljósi þess að hann var áður formaður BSRB og þar áður fréttamaður sjónvarps. Ætli hann hafi á þeim tíma verið sömu skoðunar varðandi frelsi fólks til að láta í ljósi skoðanir sínar?“

Þetta er rökrétt spurning sem ráðherrann hlýtur að svara. Hugmyndir hans um rétt til skoðanafrelsis birtast í yfirlýsingum um andstöðu við forvirkar rannsóknarheimildir af tilliti til skoðanafrelsis hugmyndafræðilegra baráttuhópa eins og hann orðar það. Hann vill hins vegar setja reglur um hvað fólk má skoða þegar kemur að klámi.