27.1.2013 22:41

Sunnudagur 27. 01. 13

Það voru þrumur og eldingar í Fljótshlíðinni í dag, líklega til marks um kraftinn í prófkjöri sjálfstæðismanna og niðurstöðu þess þar sem tvær kjarnakonur lentu í efstu sætunum. Suðurkjördæmi er sterkt vígi sjálfstæðismanna og verður áfram.

Skyndilestur á áliti meirihluta stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar alþingis á stjórnskipunarlagafrumvarpinu sem kynnt var í dag leiðir í ljós að málið er enn hálfkarað. Á mörgum stöðum er tekið fram að nefndin eigi enn eftir að athuga hitt og þetta auk þess sem skautað er yfir mikilvæga kafla með vísan til þess að Feneyjanefndin eigi eftir að segja álit sitt á þeim.

Þetta er í raun í fyrsta sinn sem meirihluti nefndarinnar segir eitthvað um efni frumvarpsins en útlistanir hans felast í að meta annars vegar tillögur stjórnlagaráðsins og hins vegar það sem sérfræðinganefndin hafði fram að færa, það er nefnd lögfræðinga sem falið var að fara yfir tillögur stjórnlagaráðsins þá er einnig tekið mið af áliti einstakra þingnefnda. Athygli vekur að meirihlutinn hallast að því er virðist meira að upprunalegum tillögum stjórnlagaráðs en breytingartillögum hinna löglærðu sérfræðinga.

Allt bendir til að frumvarpið hafi versnað í meðförum nefndarinnar og var það þó óbrúklegt áður en hún tók það til afgreiðslu.