18.1.2013 22:41

Föstudagur 18. 01. 13

Nú er samtal okkar Davíðs Oddssonar á ÍNN komið á netið eins og sjá má hér.

Í gær var sagt hér á síðunni frá ummælum Kristínar Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, um stöðuna varðandi hælisleitendur. Fjöldi þeirra er í raun óviðráðanlegur fyrir starfsmenn stofnunarinnar og sumir nýta sér þá staðreynd til að dveljast hér á kostnað skattgreiðenda.

Á ruv.is segir í dag: „Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra segir engin rök færð fyrir þessari fullyrðingu [Kristínar] heldur séu þetta óviðeigandi vangaveltur. Hann eigi þó eftir að óska eftir nánari útskýringum.“ Þetta er dæmigerð afstaða ráðherra sem treystir sér ekki til að standa að baki embættismanni vegna flokkspólitísks þrýstings. Ögmundur fellir fyrst gildisdóm en segir í næstu setningu að hann þekki ekki nóg til málsins.

Meginrök Kristínar voru að langur afgreiðslutími mála skapaði nýjar aðstæður sem þeir nýttu sér sem gætu. Hún benti á að þessi vandi væri ekki bundinn við Ísland.

Þeir einir finna að þessum ummælum sem vilja forðast að ræða vandamálið sjálft. Hér eru pólitísk öfl, meðal annars að baki Ögmundi Jónassyni, sem vilja fjölga hælisleitendum í landinu og breyta lögum og afgreiðsluháttum mála þeim í vil. Þessi pólitíska afstaða hefur ýtt undir fjölgun hælisleitenda hér. Þá kann þeim einnig að hafa fjölgað vegna þess að slakað hefur verið á reglum í Danmörku.

Þetta er pólitískt viðfangsefni sem óhjákvæmilegt er að skýra og ræða.