6.1.2013 23:10

Sunnudagur 06. 01. 13.

Enn hefur sannast að Samfylkingunni er í nöp við kristna trú og einnig þjóðkirkjuna. Skýrasta dæmið um óvildina kemur fram í ákvörðun meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur um að úthýsa öllu sem snertir ræktun kristilegrar arfleifðar úr grunnskólum borgarinnar. Þá hafa þingmenn Samfylkingarinnar snúist gegn biskupi Íslands fyrir að ætla að beita sér fyrir fjársöfnun vegna tækjakaupa í þágu Landspítalans.

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur lét undan þrýstingi frá Vantrú og öðrum slíkum hópum þegar hann tók hinar umdeildu ákvörðun sína.

Á þeim tíma lét flokksforysta Samfylkingarinnar sér það vel lynda að þessi aðför yrði gerð að kristni í skólum Reykjavíkur. Þegar þingmenn flokksins ráðast á biskupinn snúast nokkrir kunnir samfylkingarmenn kirkjunni til varnar. Þeir vita sem er að þessi árás á biskup er flokknum ekki til framdráttar.

Þótt sjálfsagt og eðlilegt sé að taka upp hanskann fyrir biskup þegar á hann er ráðist af tilefni sem þessu er hitt þó enn mikilvægara að standa vörð um hinn kristna arf og að honum sé ekki úthýst innan skólakerfisins. Man nokkur eftir að forystumenn Samfylkingarinnar hafi gengið fram fyrir skjöldu þeim málstað til varnar?