24.1.2013

Fimmtudagur 24. 01. 13

Í dag féll dómur í hæstarétti í máli sem ég áfrýjaði vegna þess að Jón Finnbjörnsson dæmdi mig í héraði til að greiða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Baugi 200 þúsund krónur í miskabætur fyrir „ólögmæta meingerð gegn æru“  hans og 200 þúsund krónur í birtingarkostnað auk hálfrar milljónar í málsvarnarlaun vegna ritvillu í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Hæstiréttur segir (þrír dómarar Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson):

„[V]erður að líta til þess að áfrýjandi [Björn Bjarnason] varð við kröfu um að leiðrétta hin röngu ummæli og biðja stefnda [Jóns Ásgeirs Jóhannessonar] opinberlega afsökunar á þeim bæði í dagblaði og á vefsíðu sinni. Verða ekki gerðar athugasemdir við síðarnefndu leiðréttingarnar. Verður að telja að hin ómerktu ummæli hafi upphaflega verið sett fram vegna mistaka áfrýjanda. Verður ekki talið að hin ómerktu ummæli, að teknu tilliti til leiðréttingar og opinberrar afsökunarbeiðni áfrýjanda og stöðu stefnda og þátttöku hans í opinberri umræðu um málefnið, hafi slík áhrif á persónu og æru stefnda að fullnægt sé skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að dæma honum miskabætur úr hendi áfrýjanda. Verður áfrýjandi því sýknaður af þeirri kröfu stefnda. Með tilliti til leiðréttingar ummælanna verður heldur ekki fallist á að beita eigi heimild 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og dæma stefnda bætur fyrir kostnað við birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu.

Að teknu tilliti til krafna málsaðila í héraði og fyrir Hæstarétti og niðurstöðu máls þessa og með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður hvorum málsaðila gert að bera sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um ómerkingu ummæla.

Áfrýjandi, Björn Bjarnason, skal að öðru leyti sýkn af kröfum stefnda, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.“

Enginn ágreiningur var af minni hálfu um ómerkingu ummælanna enda hafði ég leiðrétt þau og beðist opinberlega afsökunar. Ég segi enn hið sama og áður að hefði héraðsdómurinn staðið óhaggaður og mér verið gert skylt að greiða miskabætur og annan kostnað vegna ritvillu hefði verið farið inn á nýjar brautir við takmörkun á tjáningarfrelsinu.

Lögmaður minn var Jón Magnússon hrl. en Gestur Jónsson hrl. rak mál Jóns Ásgeirs.