15.1.2013 22:45

Þriðjudagur 15. 01. 13

Tónleikarnir Ungir einleikarar í Eldborg í kvöld þar sem fjórir ungir einleikarar komu fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bernharð Wilkinsonar sýndu enn hve blómlegt og gott tónlistarlífið er og hve góðir nemendur koma úr tónlistarskólunum.

Jóhanna Sigurðardóttir getur ekki unnt Steingrími J. Sigfússyni þess að hafa knúið fram hlé á ESB-viðræðunum það sé verk Jóns Bjarnasonar, ríkisstjórnin tók að sögn Jóhönnu ákvörðunina 14. janúar til að koma í veg fyrir að Jón splundraði stjórnarsamstarfinu. Sjá hér.

Litla samfylkingin, Björt framtíð (BF), er ekki ánægð með ákvörðun Jóhönnu. Guðmundur Steingrímsson, formaður BF, segir á Smugunni, vefmálgagni VG, í dag að Jóhanna hafi „sem betur fer“ aðeins gripið til „sýndarleiks“ það hafi aldrei staðið til að opna neina nýja kafla fyrir kosningar svo þetta sé ekki „formlegt hlé“ segir Guðmundur og einnig:  

,,Það gagnast engum að leysa upp samninganefndina og glutra niður samböndum. Ég iða í skinninu að taka alvöru umræðu um afhverju  við erum að sækja um aðild að ESB, þetta er mikilvægasta mál þjóðarinnar, að koma okkur úr efnahagslegu öngþveiti og bæta lífskjör.“

Alþingi sótti um aðild að ESB 9. júlí 2009 og þá sat Guðmundur Steingrímsson þar og lagði málinu lið. Í janúar 2013 iðar hann í skinninu „að taka alvöru umræðu“ um hvers vegna sótt séu um aðild. Hvað hefur þingmaðurinn gert í málinu síðan 2009? Hefur hann aldrei rætt það af alvöru? Hvers vegna ekki?