22.1.2013 22:41

Þriðjudagur 22. 01. 13

Í dag var samtalsþáttur minn við Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra og formann Alþýðuflokksins, um stjórnarskrármálið á ÍNN settur inn á netið og má nálgast hann hér. Við Sighvatur ræðum þann þátt stjórnarskrártillagnanna sem snerta forseta, ríkisstjórn og alþingi. Þeir sem skoða þáttinn sjá að margs er að gæta og ekki augljóst að hið nýja stjórnkerfi skili því sem að er stefnt.

Stjórnarskrármálið er strandað. Fallist Feneyjanefnd Evrópuráðsins á tillögurnar eins og þær hafa verið kynntar eða mæli með samþykkt þeirra sýnir það ekki annað en nefndin er marklaus.  Flóknara er það ekki.

Umboðsmaður alþingis kynnti í dag álit á stjórnarskrárfrumvarpinu í stjórnarskrár- og eftirlitsnefnd alþingis. Af fréttum má ráða að hann telji frumvarpið mjög gallað. Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, sat í rannsóknarnefnd alþingis sem skilaði hinni löngu skýrslu um hrunið og afleiðingar þess.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og ýmsir stjórnlagaráðsliðar hafa gefið í skyn að hið nýja frumvarp að stjórnskipunarlögum sé í einhverjum tengslum við niðurstöðu rannsóknarnefndar alþingi. Frásagnir af framgöngu Tryggva Gunnarssonar í dag benda ekki til þess að hann hafi hampað afurð stjórnlagaráðs sem afsprengi starfs rannsóknarnefndarinnar.

Ég mun halda áfram að fá viðmælendur til mín á ÍNN til að ræða stjórnarskrárfrumvarpið. Alls ætla ég að vera með fjóra aukaþætti um málið á stöðinni.

Undanfarið hafa ýmsir farið hamförum á opinberum vettvangi vegna þess sem Kristín Völundardóttir, forstjóri útlendingastofnunar, sagði um hluta þeirra sem hér hafa leitað hælis. Þess verður hins vegar ekki vart að almenn hneykslunaralda fari um samfélagið þótt Árni Páll Árnason, formannsframbjóðandi í Samfylkingunni, segi andstæðinga ESB-aðildar heimskingja í Kastljósi. Hvað veldur? Er öllum sama um orð Árna Páls?