5.1.2013 22:55

Laugardagur 05. 01. 13.

Fréttstofa ríkisútvarpsins leitar áfram eftir upplýsingum um hvað gerðist á ríkisráðfundinum 31. desember 2012 þegar Ólafur Ragnar lagði fram bókun um stjórnarskrármálið sem hann skýrði síðan frá í nýársávarpi sínu. Í dag leitaði fréttastofan álits Jóhönnu Sigurðardóttur sem taldi lögbrot að segja frá því sem fram færi í ríkisráðinu af því að fundargerðir þess væru trúnaðarmál. Í gær sagði Steingrímur J. Sigfússon að menn mættu segja frá því sem þeir hefðu sjálfir sagt í ríkisráðinu. Afstöðu Jóhönnu má túlka á þann hátt að hún hafi ekki sagt neitt á fundinum annað en að lesa textann sem fyrir hana var lagður og bókaður í fundargerðina.

Á ruv.is segir í dag:

„Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sagði í dag að forsætisráðherra ætlaði ekki að tjá sig um mál sem rædd væru á ríkisráðsfundi. Í upplýsingalögum stæði að almenningur hefði ekki aðgang að fundargerðum ríkisráðs. Samkvæmt því teldi forsætisráðherra að henni væri ekki heimilt, lögum samkvæmt, að tjá sig um málefni sem rædd væru á ríkisráðsfundi. Aðspurður hvort að samkvæmt því mætti túlka þá skoðun sem svo að forseti hefði þá brotið lög með því að tjá sig um málefni ríkisráðsfundar sagði Hrannar að það væri ekki í sínum verkahring að túlka orð forseta Íslands. Ekki fékkst viðtal við fulltrúa forsætisráðuneytis um málið.“

Jóhanna og Ólafur Ragnar deildu fyrir nokkru um siðareglur sem Ólafur Ragnar neitaði að setja um forsetaembættið að kröfu Jóhönnu. Þá gengu bréf á milli þeirra sem Ólafur Ragnar taldi óæskileg, þau ættu að ræða mál sem þessi á fundum. Hrannar B.  blandaði sér í þá deilu og nú er hann aftur kominn á stjá sem einskonar siðameistari gagnvart forsetaembættinu. Hið sérkennilega við fréttina á ruv.is er að þar virðast menn ekki líta á Hrannar B. sem fulltrúa forsætisráðuneytisins. Hver skyldi það vera – Jóhann Hauksson? Vildi hann ekki tjá sig?

Sé komið við auma blettinn á Steingrími J. æpir Björn Valur Gíslason, þingmaður VG,. Hann kallar Ólaf Ragnar „forsetabjána“ á vefsíðu sinni í dag. Skyldi hin siðsama Jóhanna setja ofan í við þingmanninn – hefur hún ekki sett siðareglur um alþingi og alþingismenn?