30.1.2013

Miðvikudagur 30. 01. 13

Í dag ræddi ég við Sindra Sigurgeirsson, formannsframbjóðanda í Bændasamtökum Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn er næst á dagskrá kl. 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Bændasamtökin hafa staðið einstaklega vel að verki við athuganir á ESB-málinu og kynningu á málstað bænda undir forystu Haraldar Benediktssonar, fráfarandi formanns samtakanna, Sindri ætlar að halda áfram á sömu braut en telur ESB-umsóknarferlinu í raun lokið og hann fái tóm sem formaður til að beina athygli samtakanna að öðru.

Eins og eðlilegt beinist umræða um niðurstöðu EFTA-dómstólsins hér á landi að samhengi hans við innlend stjórnmál. Þegar málið er brotið til mergjar blasir við ótrúleg undirgefni íslenskra ráðamanna sem óhjákvæmilegt er að ræða til hlítar, ekki til að leita að sökudólgum, þess þarf ekki, heldur til að þessi sérstæði og ömurlegi þáttur í sögu íslenskra utanríkismála sé skráður. Hann verður bautasteinn um hagsmunagæslu „fyrstu tæru vinstri stjórnarinnar“ og þaulsetu hennar þrátt fyrir að hafa hvað eftir orðið að lúta í lægra haldi í Icesave-málinu bæði innan lands og utan.

Aðrir líta á málið frá öðrum sjónarhóli eins og til dæmis efnahagsritstjóri norska blaðsins Aftenposten sem setur málið í ESB-ljós og kemst að þeirri niðurstöðu að þjóðir sem sitja undir þungri skattbyrði og með ofurskuldir ríkja sinna vegna björgunaraðgerða í þágu banka og lánardrottna þeirra muni horfa öfundaraugum til okkar Íslendinga. Greinin í Aftenposten birtist á íslensku á Evrópuvaktinni og má lesa hana hér.