21.1.2013 20:55

Mánudagur 21. 01. 13

Af Kastljós-samtali Helga Seljan við frambjóðendur í formannskjöri Samfylkingarinnar, Árna Pál Árnason og og Guðbjart Hannesson, má ráða að eina málið sem þeir vilja ræða er ESB-málið sem Össur Skarphéðinsson telur hins vegar skynsamlegt að gera ekki að „bitbeini“ fyrir kosningar.  Um leið og þeir segjast skilja og styðja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að stöðva viðræðurnar segja þeir, og þó einkum Árni Páll, að eina bjargráð þjóðarinnar sé að fara í ESB hann trúi því ekki að fólk sé svo „skyni skroppið“ að það átti sig ekki á því. Helgi Seljan sá þarna ástæðu til að mótmæla fyrir hönd meirihluta þjóðarinnar sem vill ekki inn í ESB.

Blekkingariðjan vegna ESB nær nýjum hæðum með tali formannsframbjóðenda Samfylkingarinnar. Áður en Írar tóku við formennsku í ráðherraráði ESB var látið eins og allt væri á fullri ferð í samskiptum ESB og Íslands. Jólaboðskapur formanns viðræðunefndarinnar var þess efnis að áfram yrði markvisst unnið að niðurstöðu í viðræðunum strax eftir hátíðarnar. Andstætt þeim heitstrengingum var lagt blátt bann við að ræða um alvörumál við ESB.

Formannsframbjóðendur Samfylkingarinnar þrá ekkert meira en að ræða við ESB, þeir segjast meira að segja vilja fórna ráðherrastólum eftir kosningar vegna ESB, samt segjast þeir styðja ákvörðun um að gera málið ekki að „bitbeini“ fyrir kosningar.

Hér er fiskur undir steini – líklega makríll og sú staðreynd að Írar fara með formennsku innan ESB og krefjast uppgjafar Íslendinga í makrílmálinu. Ríkisstjórnin treystir sér ekki til hennar fyrir kosningar og nýr þáttur í ESB-blekkingarleiknum er settur á svið.

Ríkisstjórn sem leggur kapp á deilur um sjálfa stjórnarskrána nokkrum vikum fyrir kosningar og sér ekkert athugavert við að hún sé bitbein fram á síðasta dag en setur ESB-málið í pólitískt skjól er ekki sjálfri sér samkvæm.