10.1.2013 23:40

Fimmtudagur 10. 01. 13

Sótti stjórnarfund í Snorrastofu í Reykholti í dag. Færðin var eins og á sumardegi en aðeins slydda fyrst á leiðinni til baka. Allan ársins hring koma ferðamenn í Reykholt og nú hefur sýningin um Snorra og sagnaarfinn verið færð í nýjan og glæsilegan búning sem kallar á fleiri gesti en áður.

Starfsemin á vegum Snorrastofu er fjölbreytt og tækifærin í Reykholti fjölmörg og spennandi. Reynslan af starfsemi þar og í Gunnarsstofnun að Skriðuklaustri er mikilvægt framlag til þess að skilgreindir verði þjóðmenningarstaðir sem hlúð sé að á sérstakan hátt enda fullnægi starfsemi þar ákveðnum lögbundnum skilyrðum.

Í kvöld var forsýning á myndinni Ryð og bein við upphaf franskra kvikmyndadaga. Sérstæð og brotakennd en myndar þó eina heild. Salur 1 í Háskólabíói var troðfullur og var setið í tröppum. Undarlegt að myndin Amour skyldi ekki sýnd – hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna í dag. Þeim sem settu kvikmyndadagana með ræðum kom ekki saman um hvort hún hefði verið tilnefnd til fjögurra eða fimm verðlauna. Tilnefningarnar eru fimm.

Sumir fjölmiðlar segja að Amour sé austurrísk mynd af því að Michael Haneke leikstjóri er austurrískur. Frakkar líta á hana sem franska. Þjóðverjar komu að því að fjármagna myndina.

áttur