25.1.2013 21:40

Föstudagur 25. 01. 13

Í dag skrifaði ég pistil og benti á umræðurnar sem urðu eftir að hæstiréttur felldi dóm í meiðayrðamáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar þar sem ummæli sem ég hafði ómerkt voru dæmd ómerk en ég sýknaður af kröfum um miskabætur. Einkennilegustu viðbrögðin við dómi hæstaréttar voru hjá fréttaritara Bloombergs á Íslandi sem tók að ræða um uppstoppaðan fálka á þann veg að því má velta fyrir sér hvort menn sem fara í meiðyrðamál vegna ritvillu hefðu ekki talið vegið að æru sinni vegna fálkans.  

Eftir að ég skrifaði pistilinn og setti hann á síðuna sá ég að á Smugunni vefsíðu VG töldu menn einnig ástæðu til að ræða uppstoppaða fálkann enda er áhuginn á aðalatriðum innan VG um þessar mundir til að dreifa athygli frá fylgistapinu.  

Á Smugunni er látið að því liggja að ég íhugi meiðyrðamál vegna fálkans, það er hreinn uppspuni. Í lögfræði má hins vegar skýra kenningar með skrýtnum dæmum sem oft eru furðulegri í raunveruleikanum en hugarheimi kenningasmiðanna. Uppstoppaði fálkinn og áhugi fréttaritara Bloombergs á því hvort ég hefði brotið lög af því að hann stóð að baki mér á ljósmynd er dæmi um eitthvað sem engum hefði dottið í hug að óreyndu.

Á dv.is gripu menn til þess eina ráðs sem var rétt hjá fjölmiðlamanni sem vill skýra mál, það er að leita sér upplýsinga um fálkann. Hvers vegna skyldi fréttaritari Bloombergs ekki hafa gert það? Hann kaus þess í stað að skjóta fyrst. Er það eftir reglum Bloombergs?