26.1.2013 22:41

Laugardagur 26. 01. 13

Hér virðast menn stundum halda að það sé sér-íslenskt að huga að verndun tungunnar og huga til dæmis að mannanöfnum af tillitsemi við íslenskt mál og meginreglur þess. Svo er alls ekki eins og sjá má hér fyrir neðan. Framburður og áherslur við flutning íslenskra texta í söngvakeppni sjónvarpsins sýna að ástæða er fyrir þá sem að þeim hlutum koma að huga að verndun íslensks framburðar og meginreglna hans.

Franska ríkisstjórnin hefur bannað að enska Twitter-orðið hashtag sé notað í opinberum skjölum. Er þetta í samræmi ákvörðun Académie française um að nota skuli franska orðið mot-dièse þegar táknið '#' birtist á prenti. Kennurum hefur verið sagt að nota þetta franska orð og ábendingum hefur verið beint til fjölmiðla um að þeir hætti að nota enska orðið.

Þessi fyrirmæli vegna hashtag eru liður í baráttu franskra yfirvalda gegn ensku. Nýlega birti franska menningarmálaráðuneytið langan lista með enskum orðum sem ráðuneytið sagði að hefðu smeygt sér inn í mál Frakka og þessum orðum yrði að útrýma.

Orðin eru meðal annars: email, blog, supermodel, take-away, chewing gum, parking, weekend og low-cost airline. Listinn frá frönsku ráðuneytinu er 65 blaðsíðna langur og þar eru meðal annars einnig: shadow-boxing, detachable motor caravan, multifunctional industrial building, serial analysis of gene expression  og  suppression subtractive hybridisation.

Af þessum orðum og setningarhlutum má ráða að í frönsku gæti enn meiri ensku-áhrifa en í íslensku. Frakkar vilja útrýma orðunum en Danir gleypa ensk orð og beita dönskum tökum eins og orðið intervjuere ber með sér svo að dæmi sé tekið.

Í skýrslu frönsku akademíunnar segir að enskumælandi menn tali um svonefndan enskumælandi heim en ekkert sambærilegt sé til á frönsku.

„Þótt um 200 milljónir frönskumælandi menn séu á jarðarkringlunni er hugmyndin um hinn frönskumælandi heim að verða útelt. Frakkar láta undir höfuð leggjast að halda eigin tungumáli á loft og það virðist vera afar lítill áhugi á því,“ segir skýrslu Académie française.