4.1.2013 18:55

Föstudagur 04. 01. 13.

Þeir sem lesið hafa fundargerðir ríkisráðs eins og ég gerði á sínum tíma þegar ég skrifaði lögfræðilega ritgerð um starfsstjórnir sjá  að í tíð Sveins Björnssonar sem forseta voru fundir ráðsins tíðari en núna og þá kom einnig til umræðna á fundum ráðsins og forseti áminnti ráðherra og setti þeim kosti vegna stjórnarmyndunar.

Ég undrast alltaf þegar menn treysta sér til þess að fara í fréttatíma eða fréttaskýringartíma ríkisútvarpsins og fullyrða eitthvað án þess að leita af sér allan grun. Í ríkisútvarpinu var þessu slegið föstu í fréttatíma í dag eins og lesa má á ruv.is:

„Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók upp mál að eigin frumkvæði á ríkisráðsfundi. Hann lagði fram bókun um stjórnarskrármálið, mál sem verið er að fjalla um á Alþingi. Slík umfjöllun er einsdæmi.

Í kjölfar bókunarinnar á gamlársdag, kom til orðaskipta á ríkisráðsfundi. Engar heimildir eru um að áður hafi komið til orðaskipta á ríkisráðsfundi.“

Forseti Íslands hefur áður lagt fram bókun á ríkisráðsfundi svo að fullyrðing um að slíkt hafi aldrei gerst er ekki rétt. Heimildir eru fyrir hendi um að orðaskipti hafi farið fram milli forseta og ráðherra á ríkisráðsfundi meira að segja í tíð þeirrar ríkisstjórnar.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon, þáv. fjármálaráðherra, lagði til við Ólaf Ragnar 31. desember 2009 að hann ritaði undir lög um Icesave-samningana tók Ólafur Ragnar sér frest, sem er einsdæmi, og hafnaði síðan nokkrum dögum síðar að skrifa undir lögin. Um þetta urðu orðaskipti á fundinum og eftir hann sagðist Steingrímur J. sjá eftir að hafa ekki krafist þess strax á honum að Ólafur Ragnar tæki afstöðu til tillögu sinnar um að rita undir lögin.

Þá taldi Steingrímur J. ekki eftir sér að segja frá atviki á ríkisráðsfundi. Nú segir hann við ríkisútvarpið að hann megi ekki segja neitt um það sem gerðist á fundinum 31. desember 2012.

Að forseti neiti að rita undir lög á ríkisráðsfundi er merkilegra í sögulegu tilliti en að forseti leggi fram bókun í ríkisráðinu.  Að neita að neita að rita undir lög er miklu afdrifaríkari aðgerð ag hálfu forseta en að leggja fram bókun í ríkisráði.

Hvers vegna skyldi fréttamaður ríkisútvarpsins sem ræddi við Steingrím J. um atvik í ríkisráði ekki hafa spurt hann um fundinn 31. desember 2009?