9.1.2013 20:45

Miðvikudagur 09. 01. 13

Í dag tók ég 50 mínútna viðtal við Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismann Alþýðuflokksins, á ÍNN um ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs sem nú eru til umræðu á alþingi og snúast um valdsvið forseta Íslands og störf ríkisstjórnarinnar. Viðtalið á að sýna klukkan 17.00 sunnudaginn 13. janúar og er hið fyrsta af fjórum löngum viðtölum sem ég ætla að taka um stjórnarskrármálið og sýnd verða í janúar, febrúar og mars ef allt gengur eins og að er stefnt.

Ég vænti þess að viðtölin verði einnig sett á netið og ég geti kynnt þau hér eftir að þau hafa verið sýnd.

Við Sighvatur förum í gegnum texta í tillögunum. Ég er sannfærður um að það komi mörgum á óvart að fylgjast með því sem kemur í ljós þegar rýnt er í textann og leitast við að skýra hann.

Sighvatur nálgast viðfangsefnið með hliðsjón af reynslu sinni sem þingmaður og ráðherra. Hann verður ekki sakaður um að skipa sér í pólitíska fylkingu gegn Samfylkingunni en þingmenn hennar knýja mest á um afgreiðslu stjórnlagatillagnanna.