17.6.1998 0:00

Miðvikudagur 17.6.1998

Samkvæmt fyrirmælum frá þeim, sem stóðu að þjóðhátíðarhaldi í Reykjavík bar okkur, sem gengum frá Alþingishúsi út að styttu Jóns Sigurðssonar, að vera komin í þinghúsið klukkan 10.15. Er þetta nokkur hópur og fer alltaf stækkandi, því að æ fleiri sendimenn erlendra ríkja koma hingað til lands til að fagna þjóðhátíðardeginum. Efna þeir gjarnan til kynningar á eigin landi í tengslum við komu sína. Þannig efndi sendiherra Ísraels til tónleika og móttöku á Grand hótel 15. júní og Eyþór Arnalds ræðismaður Botswana skipulagi menningarmóttöku í Iðnó fyrir sendiherra Botswana 16. júní. Að loknum hefðbundnum ræðuhöldum á Austurvelli var gengið til Dómkirkju. Klukkan 12.00 var síðan hátíðleg athöfn í Alþingishúsinu, þar sem skýrt var frá störfum Lýðveldissjóðs og fagnað með þeim, sem hann heiðraði sérstaklega. Klukkan 13.30 fórum við síðan í Laugardalshöllina á Háskólahátíð. Rúmlega 600 voru að útskrifast og var Sigríður Sól dóttir okkar í þeim hópi en hún lauk BS-prófi úr viðskiptadeild, fékk hún verðlaun frá Samtökum verslunarinnar og Félagi íslenskra stórkaupmanna fyrir prófritgerð sína, sem fjallar um verslun í á farþegasvæðum í flugstöðvum, er borið saman hvernig staðið er að málum í Kaupmannahöfn annars vegar og á Keflavíkurflugvelli hins vegar.