24.6.1998 0:00

Miðvikudagur 24.6.1998

Síðdegis kom það í minn hlut að stjórna fyrstu hringborðsumræðunum á ráðstefnunni um Norðurlöndin og kalda stríðið, sem haldin var á Grand hóteli að frumkvæði dr. Vals Ingimundarsonar. Þótti mér spennandi að fá tækifæri til að leiða þar saman helstu fræðmenn á þessu sviði og leitast við að skerpa annars vegar ágreining þeirra á milli og draga hins vegar fram um hvað þeir væru sammála. Vali og félögum hans tókst að ná saman öflugum og áhrifamiklum hópi fræðimanna og þátttakenda í fræðilegum umræðum á tímum kalda stríðsins til að ræða málin. Verður spennandi að lesa bókina, sem geymir erindin á ráðstefnunni, þótt vel hafi verið sagt frá mörgu í fjölmiðlum, eru þeir ekki besta heimildin um fundi af þessu tagi. Eftir umræðurnar buðum við Rut hinum erlendu gestum heim til okkar í móttöku en í hópi þeirra voru margir kunningjar mínir frá þeim árum, þegar ég sótti ráðstefnur um öryggismál og leitaðist við að skýra stöðu Íslands á tímum kalda stríðsins.