14.6.1998 0:00

Sunnudagur 14.6.1998

Við Rut fórum með Bjarna Benedikt syni okkar til Skóga undir Eyjafjöllum en þar hófst klukkan 13.45 vígsla safnakirkju. Herra Karl Sigurbjörnsson biskup vígði þessa fallegu kirkju, sem hefur verið reist undir forsjá Þórðar Tómassonar, safnvarðar, hins einstaka frumkvöðuls við varðveislu minja á Suðurlandi. Er Byggðasafnið í Skógum hið myndarlegasta í landinu og ber allt svipmót Þórðar. Eftir hina hátíðlegu vígslu var kaffisamsæti með þátttöku tæplega 400 manns og mörgum ræðum. Um klukkan 18 lauk því og fórum við þá í Skógaskóla, þar sem ég ritaði undir samning ásamt formönnum hérðasnefnda Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga um að þær stæðu framvegis að baki Framhaldsskólans í Skógum og rækju hann sem einkaskóla með samningi um fjármögnun við menntamálaráðuneytið. Með þessu tel ég að skapaðar séu forsendur fyrir því að þróa skólann með nýjum hætti en fjöldi þeirra, sem stunda hefðbundið framhaldsskólanám í Skógum, hefur minnkað svo mikið, að við blasti að óbreyttu að leggja það skólahald niður. Nú hafa heimamenn með Sverri Magnússon skólameistara í fararbroddi tekið skólann í sínar hendur. Þegar tekið er mið af því, hve glæsilega þeir hafa staðið að því að byggja upp Byggðasafnið í Skógum efast ég ekki um, að þeir munu af myndarskap skipuleggja skólastarf á þann veg í Skógum, að þangað sæki nemendur til metnaðarfulls náms á stuttum starfsbrautum, ef ekki er unnt að halda úti hefðbundnu bóknámi. Á síðasta vetri var gerð tilraun með nám í hestamennsku í Skógum og gekk það vel. Vorum við í góðu yfirlæti í Skógum fram yfir kvöldmat og fengum að gæða okkar á hinu vinsæla hlaðborði í Eddu-hótelinu.