Þriðjudagur 30.6.1998
Við sátum allan daginn á ráðherrafundinum, þar rætt var um menningu og þróun, menningarlega fjölbreytni í hnattvæðingunni og menningu og viðskipti. Ætlunin er að halda viðræðum áfram á þessum forsendum og hefur Mexíkó boðað til fundar á næsta ári. Ljóst er, að ekki er síður mikilvægt að ræða menningarlega þætti í alþjóðlegu samhengi en aðra. Á ráðstefnunni um Norðurlöndin og kalda stríðið kom til dæmis glöggt fram, hvernig menn notuðu menningu og listir til að koma ár sinni fyrir borð. Þátttaka okkar Íslendinga í EXPO'98 og þjóðardagurinn hefði orðið svipur hjá sjón, ef við hefðum ekki fengið hina góðu listamenn til liðs við okkur. Í þessu felst ekki að stjórnmálamenn eigi að segja listamönnum fyrir verkum heldur hitt, að á alþjóðavettvangi eykur það veg og virðingu þjóða að sýna og sanna, að þær séu lista- og menningarþjóðir. Á þann hátt opnast margar dyr, sem eru lokaðar endranær. Ráðherrafundinum lauk með fjölmennum blaðamannafundi og daginn eftir var til dæmis nokkur löng frásögn í The New York Times, þar sem sagt var frá fundinum á þeim forsendum, að tiltækið mætti skilja sem andóf gegn bandarískum menningaráhrifum og ekki hefði verið boðið bandarískum fulltrúa á þeirri forsendu, að þar væri enginn menningarmálaráðherra, hins vegar hefði verið boðið fulltrúa frá Mexíkó, þar sem væri ekki heldur neinn menningarmálaráðherra. Á ráðherrfundinum var enginn með nein hnjóðsyrði í garð Bandaríkjanna, hins vegar er vafalaust unnt að túlka kröfur okkar margra um menningarlega fjölbreytni sem gagnrýni á hina miklu bandarísku menningarlegu áreitni. Við Íslendingar höfum glímt við það viðfangsefni í hálfa öld án þess að tapa okkar menningu, við þurfum ekki að sækja alþjóðlega sjálfsstyrkingarfundi í þeirri baráttu. Við sækjum slíka fundi til að minna á tilvist okkar, þess vegna þótti mér vænt um að vera í hópi hinna fáu ráðherra, sem boðið var til þátttöku í þessu óformlega samstarfi. Um kvöldið hófst listahátíð í Ottawa og var okkur boðið að vera við upphaf hennar, þar sem 9. sinfónía Beethovens var meðal annars flutt og voru listamennirnir með mér sannfærðir um, að við hefðum getað gert það betur hér á landi.