Mánudagur 29.6.1998
Þennan dag flugum við Rut ásamt Hjálmari H. Ragnarssyni, forseta Bandalags íslenskra listamanna, til Ottawa í Kanada til að taka þar þátt í óformlegum fundi menningarmálaráðherra frá 20 ríkjum, sem Sheila Copps, menningarmálaráðherra Kanada, blés til á UNESCO-ráðstefnunni um menningarmál í lok mars sl. Við flugum með Continental-flugfélaginu beint frá Lissabon til Newark fyrir sunnan New York. Tók flugið um sjö tíma, tímamunur var fimm tímar, þannig að við lentum um hádegisbil á amerískum tíma þar. Ætluðum við að taka flug til Ottawa um tveimur stundum síðar, en það var þá fellt niður og urðum við að taka annað flug síðar, sem varð bæði til þess, að farangur okkar týndist og við komum of seint til kvöldverðar í Ottawa. Allt bjargaðist þó að lokum og fengum við töskurnar um nóttina, en fátt finnst mér verra á ströngum ferðum eins og þessum en að týna farangrinum, þetta var þeim mun ergilegra vegna þess að í Newark gengum við hvað eftir annað eftir því, að örugglega yrði passað upp á töskurnar okkar, vorum við fullvissuð um að þeirra væri gætt sérstaklega vel, allt kom þó fyrir ekki.