Laugardagur 27.6.1998
Þetta var stóri dagur Íslands á EXPO'98, það er hinn svokallaði þjóðardagur, þegar einstökum ríkjum gefst færi á að kynna menningu sína á sýningunni og nýta til þess sviðin, sem þar eru dreifð um svæðið. Hin formlega athöfn hófst með því að þjóðsöngvar Íslands og Portúgals voru leiknir og fáni Íslands dregin að húni á sérstakri heiðursstöng við sýningarskála Portúgals. Lék Blásarakvintett Reykjavíkur einnig við þessa athöfn. Síðan fórum við inn í skála Portúgals, þar sem skipst var á ræðum og gjöfum og skálinn skoðaður. Þaðan fórum við með Portúgölunum í íslenska skálann og skoðuðum hann. Martinez vinur minn, sem ég gat um hér að ofan, fór með hópi félaga sinna úr Alþjóðaþingmannasambaninu í skálann og sendi mér síðan bréf þar sem segir meðal annars: But we certainly found a moment to see the Icelandic Pavilion which was pretty crowded and gave me an excellent impression. The film was a good one and the show - with the water on the floor reflecting what was going on the screen - was very appealing. And the people were as friendly as expected - I suppose that I shall come again to the Expo and I'll take further chances to refresh my hands and face with the ice along the walls of your exhibition... Congratulations! Þetta innskot finnst mér góður vitnisburður um skála okkar Íslendinga á þessari miklu sýningu. Eftir heimsóknina þangað var okkur boðið til hádegisverðar í portúgalska skálanum, hann er listaverk út af fyrir sig og gerður af arkitekt, sem aðhyllist naumhyggju og hefur hann ekki aðeins teiknað húsið sjálft heldur öll húsgögnin líka. Eftir sýninguna flytur forsætisráðuneyti Portúgals inn í húsið og verða þar skrifstofur þess og móttökustaður ríkisstjórnarinnar. Að loknum hádegisverðinum fór ég í skoðunarferð á sjávardýrasýninguna, sem er einstaklega vel úr garði gerð. Leiðir okkar Rutar skildu, því að hún fór og hitti félaga sína úr Kammersveit Reykjavíkur, sem var meðal þeirra hópa íslenskra listamanna, sem komu fram þetta sama kvöld. Fengu þau tækifæri til að æfa sig þetta síðdegi. Um klukkan 18.30 hófst síðan móttaka um borð í Hvítanesinu, saltfiskflutningaskipi SÍF, sem var komið sérstaklega til Lissabon þennan dag til að taka þátt í hátíðinni. Voru það stuðningsaðilar þátttöku okkar í EXPO úr atvinnulífinu, sem stóðu að þessari móttöku og síðan kvöldverði á nálægum veitingastað á sýningarsvæðinu á eftir. Voru fulltrúar þessara fyrirtækja komnir til Lissabon af þessu tilefni og einnig ræðismenn Íslands í Portúgal og á Spáni. Hafði Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra orð fyrir gestgjöfunum en hann hefur borið hitann og þungann af því að skipuleggja þátttöku okkar í sýningunni ásamt með Jóni Ásbergssyni, forstjóra Útflutningsráðs, og Ólafi Davíðssyni, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu. Við Sverrir Haukur og starfsmenn menntamálaráðuneytisins, sem þarna voru þær Karitas H. Gunnarsdóttir og Laufey Guðjónsdóttir, sem sá um að allt gengi upp vegna listsýninganna um kvöldið, urðum að standa upp frá borðum til geta fylgst með framgöngu okkar fólks. Er skemmst frá því að segja, að allt gekk að óskum, þótt menn hefðu haft nauman tíma til að átta sig á öllum aðstæðum og þær væru ekki allar eins og best væri á kosið og listamennirnir hefðu orðið að leggja hart að sér vegna ferðalaga og gistiaðstöðu. Klukkan 23.00 höfðum við Rut boðið öllum listamönnunum, tæknimönnunum, starfsmönnum í íslenska skálanum og öllum, sem við náðum til og tengdust þjóðardeginum með einum eða öðrum hætti og voru þarna á staðnum, til veislu á veitingastað við þann stað á EXPO-svæðinum, þar sem best var að fylgjast með mikilli ljósa- og eld-miðnætursýningu. 150 til 200 manns komu til þessarar veislu, sælir og glaðir eftir góðan og árangursríkan dag. Hinni glæsilegu miðnætursýningu verður ekki lýst með orðum, svo að ég sleppi því. Var klukkan rúmlega 2 eftir miðnætti, þegar við Rut og Sverrir Haukur yfirgáfum staðinn og þá gesti, sem enn voru þar í góðu yfirlæti. Í Morgunblaðinu birtist hinn 1. júlí viðtal við mig um þjóðardaginn undir fyrirsögninni: Ógleymanlegur dagur. Læt ég hana fljóta hér með: ÉG ER sannfærður um að enginn sem tók þátt í þessari dagskrá mun nokkru sinni gleyma því. Þetta var einn af þessum ógleymanlegu dögum, sem menn kannski upplifa einu sinni á ævinni. Allt heppnaðist svo vel, skipulagningin, móttakan og heimsóknin í íslenska skálann, sem hafði sterk áhrif á þá portúgölsku gesti sem voru með okkur. Það voru allir mjög hrifnir af andanum sem ríkti þar og því sem er til sýnis, sagði Björn Bjarnason menntamálaráðherra í samtali við Morgunblaðið á heimssýningunni í Portúgal, en þar var haldinn íslenskur dagur um helgina. Ég fékk síðan tækifæri til að hitta alla þá aðila sem standa að því að borga kostnaðinn við skálann ásamt með ríkisvaldinu. Hvítanes kom hingað og mér þótti það ákaflega góð hugmynd að fara þar um borð og minnast þannig saltfisksölunnar til Portúgals með öllum þessum kaupendum að íslenskum saltfiski hér. Eins var gaman að hitta okkar ræðismenn. Í einu orði sagt fannst mér mjög vel að öllu þessu staðið, sagði Björn. Í góðri samvinnu við listamenn Menntamálaráðherra sagði sýninguna hafa haft mjög langan aðdraganda og það hefði verið mjög ánægjulegt að sjá hvernig tekist hefði til við framkvæmdir og skipulagningu: Við höfum staðið í undirbúningi í menntamálaráðuneytinu með góðri samvinnu við listamennina með það fyrir augum, að nýta þær aðstæður sem heimssýningin hefur upp á að bjóða út í æsar. Því höfum við komið hingað með sjö hópa sem spanna mjög breitt svið. Ég sá ekki betur en það hafi gengið mjög vel eftir og ég tók eftir því, þegar við fórum á milli staðanna, að áhorfendur og áheyrendur kunnu mjög vel að meta þetta. Það var alls staðar troðfullt og mikil hrifning og mikil stemmning. Þetta gekk eins vel og best verður á kosið og heppnaðist allt ákaflega vel. Það eru fáar þjóðir sem hafa boðið upp á svona viðamikla og breiða dagskrá. Við höfðum nútímalega músík, þjóðdansa og nútíma ballett, kvartett, kvintett, alvörugefin verk eins og Ormstungu og verk sem slógu á léttari strengi. Þessi breidd gerði prógrammið ennþá skemmtilegra, sagði hann. Tókst betur til en við þorðum að vona Björn sagði að undirtektir Portúgala hefðu verið mjög góðar og þeir mætu það mikils hvernig Íslendingar hefðu nálgast þetta viðfangsefni: Það var líka skemmtilegt að skoða sjávardýrasýninguna sem þeir eru hvað stoltastir af og sjá þar 60 fugla frá Íslandi, bæði lunda og langvíur frá Vestmannaeyjum, sem keppa þarna við mörgæsir frá Chile um athygli gesta. Það má því segja að við munum eiga hér varanlega fulltrúa á þessu sýningarsvæði. Ég er mjög ánægður með þetta framlag Íslendinga, tel það hafa tekist mjög vel og jafnvel betur en við þorðum að vona. Þetta mikla átak við undirbúning og skipulagningu hefur skilað árangri, sagði menntamálaráðherra að lokum.